A A A

-Eðvarð T. Jónsson tekur Baldur Geirmundsson í BG-flokknum tali. [1980]

Í síðasta jólablaði Vestfirska kynntum við rakarameistarann, listmálarann og harmoníkusnillinginn Villa Valla, sem haldið hefur uppi djamminu hér á Ísafirði og nágrenni undanfarna þrjá áratugi. En Villi Valli er ekki einn um hituna eða heiðurinn, eins og kunnugt er. Ýmsar aðrar merkar danshljómsveitir hafa hér gert garðinn frægan gegnum tíðina og hin fremsta þeirra er hiklaust hljómsveit Baldurs Geirmundssonar, en hún hefur borið ýmis nöfn á liðnum árum og þó ávallt verið kennd við upphafsmanninn. BG-kvintettinn og Gunnar Hólm, BG og Árni, BG og Ingibjörg - nöfnin skipta ekki meginmáli; það er músíkin sem blívur og hvað þá hlið málsins snertir hefur BG alltaf staðið fyrir sínu.

 

Byrjaði með harmoníkuna

Við leituðum á fund Baldurs Geirmundssonar uppi á Hjallavegi í þæfingsfærð um daginn og báðum hann að segja okkur undan og ofan af ferli sínum og hljómsveitarinnar þau tæplega 30 ár, sem hann hefur spilað fyrir dansi hér fyrir vestan. Baldur tók því vel, náði í myndaalbúmið og fór síðan að rifja upp gamlar minningar.

Ég byrjaði að spila á sveitaböllum í Hnífsdal og inni í Djúpi rétt eftir fermingu, sagði Baldur. Ég spilaði á harmoníku og við vorum yfirleitt tveir, sem skiptumst á að spila. Inni í Djúpi vorum við alltaf saman, ég og Dóri Víglunds, og spiluðum til kl. 4-5 á næturnar. Það var alltaf hörkustemning á þessum sveitaböllum og ég minnist þess, að Sjómannavalsinn, sem Sigurður Ólafsson söng, var langvinsælastur á þessum tíma. Þarna var samankomið allt yngra fólkið í sveitinn. Til þessara dansleikja var þannig stofnað, að unga fólkið ákvað með litlum fyrirvara að slá upp balli og fékk einhvern til að spila.

Ég hef alltaf haft áhuga á músík, en ég hafði nánast engin kynni af hljóðfærum fyrr en ég var ellefu eða tólf ára gamall. Þá kom ég á gamalt verkstæði í Hnífsdal, skátaheimilið svonefnda. Þar var orgel og ég fór að fikta við það. Síðan keypti eldri bróðir minn, Gunnar, sér harmoníku og ég var alltaf að stelast í hana. Seinna keypti ég mér danskan harmoníkuskóla, sem var nokkuð kominn til ára sinna, og þannig lærði ég nóturnar smámsaman. Gömlu dansarnir voru allir á nótum og maður var alltaf að spila þetta.

Á þessum árum var Villi Valli með einu hljómsveitina á Ísafirði ásamt Adda Tryggva. En fyrsta hljómsveitin sem ég spilaði í var með Kalla heitnum Tomm og Karli bróður mínum. Við spiluðum gömlu dansana í Gúttó. Hljómsveitin hét BKB, en nafngiftin var þannig til komin, að Bæring bakari Jónsson byrjaði fyrst að spila með okkur en hætti síðan. Gömlu dansarnir voru á tveggja vikna fresti í Gúttó og það var jafnan talsverður viðburður í bæjarlífinu. Þá var miklu meira um það, að menn komu af dansgólfinu og fengu að "taka í", eins og það kallaðist, þ.e. spila með hljómsveitinni. Það voru margir liðtækir spilarar, sem spreyttu sig þannig með okkur og þetta mæltist vel fyrir.

Minna drukkið í gamla daga

Það var alltaf eitthvað um slagsmál á böllum í gamla daga, hélt Baldur áfram. Drykkja var töluverð, en mér finnst hún ekki hafa breyst til batnaðar nema síður sé. Í Hnífsdal t.d. var ekki drukkið eins mikið á böllunum - allavega fór það leyndara. En meginmunurinn var kannske sá, að kvenfólk drakk miklu minna en nú tíðkast. Menn höfðu kannske til siðs að fara útundir vegg, snafsa sig og koma svo inn aftur. En það þótti skömm að því í Hnífsdal að vera mikið fullur á balli. Það voru ekki nema örfáir menn sem gátu leyft sér það.

Í Hnífsdalnum voru það aðallega heimamenn sem komu á böllin. Fólk kom ákaflega lítið héðan frá Ísafirði. Kvenfélög og önnur samtök stóðu fyrir þessum böllum og Hnífsdælingar fjölmenntu og vildu helst ekki fá neina aðra að. Þetta var líka alveg nóg, því húsið var svo lítið. Það var orðið troðfullt, þegar 60-70 manns voru komnir inn. Við spiluðum náttúrulega þau lög, sem vinsæl voru á þessum tíma. Erla Þorsteinsdóttir, söngkona, var upp á sitt besta um þær mundir og lagið hennar hugljúfa "Draumur fangans" var í miklu afhaldi hjá fólki. Smekkur manna var kannske rómantískari en nú gerist. Svo voru auðvitað gömlu dansarnir og fólkið fór í marsana af miklum krafti og þessu var öllu stjórnað af röggsemi. Það var dálítið mikið um það í Hnífsdal.

Gunnar Hólm kemur til skjalanna

Síðan varð sú breyting á, að Gunnar Hólm, sem núna er með Villa Valla kom til okkar og fór að syngja með okkur. Við fórum á þessum tíma í hljómleika- og sýningarferð með Jóni Bjarnasyni, ljósmyndara. Við vorum með ýmis skemmtiatriði, sællar minningar. Jón Bjarnason sýndi töfrabrögð og dró bíl á tönnunum. Ferðin var eiginlega byggð í kringum þessar kúnstir Jóns, en hann var aðalskemmtikrafturinn hérna á þessum árum og mikið númer á öllum kabarettum og þessháttar.

Við fórum norður og austur um land og höfðum víða viðkomu. Þetta tókst ágætlega og kom sér vel upp á seinni tíma. Það tekur yfirleitt langan tíma að auglýsa upp hljómsveitir úti á landi, en þessi ferð hjálpaði mikið til.

Ég spilaði mikið á saxafón á þessum tíma, en músíkin var nánast ekkert rafmögnuð nema kannske einn gítar. Við komumst ágætlega af án magnara.

Slegist um "beinið"

Síðan hefst merkur kapítuli í sögu hljómsveitarinnar, þegar Árni Búbba kom til sögunnar. Hann söng með okkur í 2-3 ár og þá var rokkið að byrja fyrir alvöru. Tími Bítlanna og Rolling Stones var upprunninn. Árni hafði verið í Þýskalandi um skeið að æfa skíði og þegar hann kom aftur hafði hann með sér mörg góð rokklög, sem náðu feikivinsældum hér. Það var mikil gerjun í dægurtónlistinni á þessum tíma. Hér á Ísafirði var geysihörð samkeppni milli tveggja hljómsveita: BG og Árna og VV og Barða. Það voru yfirleitt böll á tveimur stöðum í einu og við stíluðum náttúrulega upp á sama fólkið. Markaðurinn var ekki ýkja stór - ætli það hafi ekki verið milli 150-160 manns, sem sóttu böllin að staðaldri. Og þá var slegist um "beinið", ef þannig mætti að orði komast. Margt trixið var notað í þeirri samkeppni. Þá stóð "grautarskólinn", sem við nefndum svo, Húsmæðraskólinn á Ísafirði, með miklum blóma. Þar var fjöldi ungmeyja, 20-30 talsins. Það var hringt í þær og þeim boðinn miði og síðan gátu þær valið um á hvorn staðinn þær fóru. Aðsóknin fór síðan eftir því sem þeim datt í hug. Málið var að ná þeim á ball, því karlpeningurinn kom náttúrulega á eftir. Ýmis gylliboð voru höfð uppi og sérstakir áróðursmeistarar á snærum hljómsveitanna, sem tóku að sér að fiffa til stelpurnar. Í svona bransa gerist ýmislegt á bak við tjöldin, en ég ætla ekki að segja þér neinar sögur af því. Það er allt viðkvæmt mál. Menn gerðu ýmsar rósir og ekki hægt að tíunda það allt eftir á.

Fyrsta platan

Árni Búbba var vinsæll söngvari og hafði líflega sviðsframkomu, en eftir 2-3 ár var hann orðinn þreyttur á þessu og gerðist umboðsmaður hljómsveitarinnar í staðinn. Þá vorum við svo stálheppnir að ná í Ingibjörgu Guðmundsdóttur sem söngkonu. Hún hafði verið uppgötvuð í hæfileikakeppni, að ég held. Ingibjörg hafði góða rödd og skemmtilega sviðsframkomu og átti auðvelt að tala við fólk, en það er mikilsvert í þessum "bransa". Gunnar Hólm var með okkur sem trommuleikari, þegar við tókum upp fyrstu plötuna "Þín hinsta þrá", en það var tveggja laga plata. Hún var tekin upp 1968 að mig minnir. Þessi litla plata gekk óhemju vel og var spiluð í öllum óskalagaþáttum í útvarpinu í heilt ár og heyrist jafnvel ennþá öðruhvoru. Ingibjörg syngur þetta rólega lag af mikilli innlifun. Þetta var eitt af þeim lögum sem Árni kom með frá Þýskalandi, en melódían er ítölsk. Seinna gáfum við út aðra tveggja laga plötu "Fyrsta ástin" og hún gekk mjög vel líka. Þá áttum við tvö lög á plötunni "Hrif I." sem Ámundi stórbisnismaður í Reykjavík og helsti hljómplötuframleiðandi þeirra ára lét gera með fimm íslenskum hljómsveitum. Hann hringdi í okkur með nánast engum fyrirvara og spurði hvort við vildum vera með. Við ákáðum að skella okkur í þetta. Þarna er að finna lagið "Góða ferð", sem náði miklum vinsældum. Hitt lagið var "Hæ Gudda, gættu þín."

Síðasta platan, sem við gerðum voru "Sólskinsdagar". Það var 12 laga plata. Hún seldist í milli 2500-3000 eintökum, sem þykir gott hérlendis. Síðan þá höfum við enga plötu gert og erum ekki með neitt ákveðið á prjónunum a.m.k. ekki í bili.

Meiri hávaði

Þegar Ingibjörg hætti eftir að hafa sungið með okkur í ein 8 ár, breyttum við nafni hljómsveitarinnar í BG-flokkurinn. Þá byrjaði Svanfríður að syngja með okkur en hún er sem stendur í barnsburðarleyfi.

Það hafa auðvitað miklar og róttækar breytingar orðið á tónlistinni síðan ég byrjaði að spila á harmoníku fyrir 25-30 árum. Mesta breytingin er að mínum dómi hávaðinn. Áður fyrr var þetta allt miklu lágværara. Í dag er vonlaust að ætla sér að spila á blásturshljóðfæri án þess að vera með magnara. Þetta gat maður alveg áður. Það er kannske ekki fólkið heldur sjálf tónlistin sem útheimtir þennan hávaða. Annars líkar mér þessi tónlist vel, sem gengur í dag, þótt ég kunni ekki að meta pönkið. Mér finnst það einum of billegt. En það er margt skrambi gott í dægurtónlistinni nú orðið.

Aðstaðan hjá okkur hefur breyst mjög til batnaðar eftir að við fengum Uppsali sem fastan samastað. Okkur var eiginlega útskúfað í Hnífsdal, þegar þeir réðu fasta danshljómsveit yfir vetrartímann, sem aldrei hafði verið gert áður. Þess vegna fórum við út í það að vera með Uppsali. Það var nauðsynlegt fyrir okkur, ef við ætluðum að halda áfram að spila.

Síðan höfum við spilað við ýmiskonar tækifæri, heima og heiman, t.a.m. á Vestfirðingakvöldinu á Hótel Loftleiðum fyrir nokkrum vikum. Það var mjög skemmtileg reynsla og við hittum þarna marga gamla kunningja frá því fyrr á árum, þegar BG og Árni voru og hétu. Þrátt fyrir mannaskipti og sviftingar ýmiskonar höfum við alltaf haft góða samstöðu innan hljómsveitarinnar. Við erum ekkert á því að leggja upp laupanna strax, sagði Baldur Geirmundsson að lokum.

etj.-


Vefumsjón