A A A
Það sjónarmið sem gildir við ritun hljómplötudóma er einkum það hvort tónlistin á viðkomandi plötu er slæm eða góð, og hvernig hún er sett fram og unnin. Þetta er meginreglan, en til eru undantekningar - og plata B.G. og Ingibjargar, Sólskinsdagur, verður að flokkast undir eina slíka undantekningar.

Megin tilgangur með útgáfu þessarar plötu er sá, að draga upp mynd af þessari vinsælu hljómsveit, sem leikið hefur fyrir þúsundir manna á dansleikjum árum saman. Platan á að vera eins konar minning um hljómsveitina (ef hún skyldi hverfa af sjónarsviðinu allt í einu) og sýna vinsæla íslenzka danshljómsveit. Tónlistin sjálf ræðst því af þessum markmiðum.

Ekki svo að skilja að tónlistin sé eitthvert aukaatriði, því það er hún að sjálfsögðu ekki. En það er hins vegar ekki verið að reyna að vanda til hennar á annan hátt en þann að sýna góða dans- og dægurlagahljómsveit.

Tilgangurinn er því annar, en flestra annarra platna sem hér hafa verið teknar til umfjöllunar - og því verður að hafa hann ríkt í huga.

Mér er engin launung á því, að sem "skemmtiplata" er Sólskinsdagur mjög góð, og kannski sú bezta sem komið hefur út hér á landi. Til viðmiðunar höfum við t.d. vinsæla plötu frá Ingimar Eydal og hljómsveit, sem út kom up síðustu jól - og það þarf engum blöðum um það að fletta, að Sólskinsdagur ber höfuð og herðar yfir þá plötu. Það þarf að vísu ekki mikið til.

Höfuðkostur Sólskinsdags er sá, að lögin eru flest öll góð - þau eru fjölbreytt og það sem kannski er mest um vert, þau eru flutt á einfaldan og smekklega hátt, sem hæfir dægurlögum. Fyrir vikið er platan afskaplega aðgengileg, það er léttur blær yfir henni, - og frumsömdu lögin sízt lakari en þau erlendu.

Það heyrist að sjálfsögðu að hér eru engir atvinnuhljómlistarmenn á ferðinni, en það kemur ekki að sök, því hljómsveitin er ekki að fást við neitt, sem er henni ofviða. Hljóðfæraleikurinn er einfaldur, og söngurinn nokkuð góður, sérstaklega sýnir Ingibjörg G. Guðmundsdóttir ágæt tilþrif í nokkrum lögum. Ólafur Guðmundsson er hins vegar mistækari.

Fimm lög af ellefu eru frumsamin, en erlendu lögin eru úr ýmsum áttum, m.a. eftir Lous Armstrong, Booker T. Jones og Johny Nash.

Baldur Geirmundsson (B.G.) sá um allan hljómborðsleik, Samúel J. Einarsson lék á bassa. Karl Geirmundsson og Ólafur Guðmundsson léku á gítara, Ingibjörg G. Guðmundsdóttir og Ólafur Guðmundsson sáu um söng í flestum lögunum.
Til aðstoðar voru: Magnús Kjartansson, Hrólfur Gunnarson, Ragnar Sigurjónsson, Reynir Siguðrsson, Gunnar Egilson og Árni Elfar. Upptöku stjórnaði Magnús Kjartansson.

Textar plötunnar eru margir ágætir, en þeir eru eftir B.G. og Ingibjörgu, og Jónar Friðrik.

Bestu lög:
Fátt um svör (Johny Nash/Jónas Friðrik)
Baldursbrá (Baldur Geirmundsson)
Leikföng (Ók. höfundur/Jónas Friðrik)

B.S.
Vefumsjón