A A A
Fyrir tveimur-þremur vikum síðan kom út tveggja laga SG-hljómplata með hljómsveitinni B.G. og söngkonunni Ingibjörgu frá Ísafirði. Á A-hlið plötunnar er lagið "Þín innsta þrá" og er það sungið af Ingibjörgu. Lagið er erlent að uppruna, heldur gamaldags, en Ingibjörg gerir því hin ágætustu skil, og rödd hennar ber með sér að hún er líkleg til stærri hluta síðar meir. Röddin er þó heldur lítil og það sem mætti kalla "sæt", en ber með sér vissan þokka. Í laginu er tvísöngskafli, og hef ég grun um að það sé bassaleikarinn, Hálfdán Hauksson, sem syngur með henni og er viss sjarmi yfir þeim hluta lagsins. Hljóðfæraskipan hljómsveitarinnar er nokkuð venjuleg, gítar, bassi, trommur, orgel og tenór-saxófónn, og eru þeir félagar sjálfsagt allir þokkalegir hljóðfæraleikarar, en orgelinu hefði mátt beita á mun skemmtilegri hátt. Hinum megin er lagið "Æskuást" og er þar á ferðinni í hlutverki söngvara, Hálfdán Hauksson, en lagið er eftir hljómsveitarstjórann, Baldur Geirmundsson. Hálfdán er alls ekki óáheyrilegur söngvari, en lagið sjálft er ákaflega dæmigert fyrir þessa svokölluðu "dreifbýlismúsik", og textinn finnst mér ekki falla nógu vel að því. Eitt er það þó við rödd Hálfdáns sem ég á bágt með að sætta mig við og það er litleysi hennar.

Útsetningarnar eru báðar nokkuð svipaðar og er ekkert við því að segja, en heldur finnst mér þær minna á aðra hljómsveit sem hér starfar - "a la Óli Gaukur".

Báðir textarnir eru eftir Jóhönnu G. Egilsson, og standa fyrir sínu, ósköp indælir, en Jóhanna hefur undanfarið gert nokkra frábæra texta - og nægir þar að benda á "Frelsara" Ævintýris.

Upptaka, sem gerð var í Ríkisútvarpinu-Hljóðvarp, er ágæt en plötuumslag er ekki nema rétt þolanlegt. Í heild er þessi plata ágæt og hef ég grun um að "Þín innsta þrá" eigi eftir að verða vinsælt í óskalagaþáttum útvarpsins, en hljómsveitin sjálf á fádæma vinsældum að fagna á Vestfjörðum.
Vefumsjón