A A A
Vestfirzka hljómsveitin B.G. og Ingibjörg hafa að undanförnu dvalizt í salarkynnum Hljóðrita hf. í Hafnarfirði við hljóðupptöku á nýrri LP-plötu - þeirri fyrst sem kemur út frá hljómsveitinni. Útgefandi plötunnar er Steinar hf.
Nú-tíminn heimsótti meðlimi hljómsveitarinnar í stúdíóið fyrir nokkru og átti stutt spjall við þá, en hljómsveitina skipa, Baldur Geirmundsson, hljómborðsleikar og saxofónleikari (B.G. sjálfur) Samúel Einarsson, bassaleikar, Ingibjörg G. Guðmundsdóttir, söngkona, Karl Geirmundsson, gítarleikari, Ólafur Guðmundsson, gítarleikar og söngvari, og Rúnar Vilbergsson, trommuleikari.

B.G. og Ingibjörg hafa gefið út þrjár tveggja laga plötur, sem allar hafa orðið vinsælar, og eins átti hljómsveitin tvö lög á Hrif 1, sem kom út 1974.

- Hljómsveitin leikur raunar bara yfir sumartímann, þ.e. þrjá mánuði á hverju ári, sagði Baldur, þar sem þrír hljómsveitarmeðlimir eru í skóla að vetri til og hópurinn sundrast því alltaf. Hins vegar hef ég og tveir aðrir úr hljómsveitinni rekið tríó yfir vetrartímann og leikið á þorrablótum og öðrum samkomum á Vestfjörðum.

- Það er að mörgu leyti ágætt að starfsrækja hljómsveit út á landsbyggðinni, sögðu þau. - Það er ágætt upp úr þessu að hafa, en auðvitað erum við hálfgerð atvinnuhljómsveit yfir þessa þrjá mánuði sem við leikum.

- Hvað er langt síðan hljómsveitin B.G. og Ingibjörg var stofnuð?

- Það eru 7 eða 8 ár síðan Ingibjörg byrjaði að syngja með hljómsveitinni, en hljómsveit B.G. er orðin tvítug að aldri.

- Nú hefur þú ekki alltaf leikið með sömu hljóðfæraleikurunum, Baldur, - hefurðu tölu á því, hvað margir hljóðfæraleikarar hafa verið í hljómsveit þinni.

- Nei, það hef ég ekki, en ég gæti gizkað á, að þeir væru ekki undir þrjátíu.

- Hann hefur leikið með öllum vestfirzkum hljóðfæraleikurum, sagði Samúel.

- Hvað er það sem heldur þér við þetta starf svona ár eftir ár?

- Bara ánægjan. Mér þykir mjög gaman að þessu, og sú er ástæðan. Engin önnur.
5 ár eru liðin frá því fyrsta lag hljómsveitarinnar var gefið út á plötu, og var það tekið upp í Ríkisútvarpinu, svo og næstu tvær tveggja laga plötur. Lögin á Hrif 1 voru hins vegar tekin upp í HB stúdíói. Á þeirri plötu sem hljómsveitin vinnur að um þessar mundir, eru 5-6 lög frumsamin (ekki fastákveðið hversu mörg þau verða, þegar þetta er skrifað) og eru flest þeirra skýrð í höfuðið á höfundinum(!) s.s. Sammasamba (eftir Samúel) Kallalag (eftir Karl) og Baldursbrá (eftir Baldur). Önnur lög plötunnar eru erlend og eru þau fengin úr ýmsum áttum.

- Við höfum það eitt að markmiði, að platan verði létt og skemmtileg, sögðu þau. - Hugmyndin í upphafi var sú, að gefa út plötu, sem gæfi yfirlitsmynd af hljómsveitinni, eins og hún er í raun og veru, - og við höldum okkur við þá hugmynd.

- Við erum í raun og veru að reisa okkur minnisvarða, enda gerir það enginn, ef við gerum það ekki sjálf.

- Já, það er mikill munur að leika fyrir segulband en fólk á dansleikjum, sögðu þau að lokum.
Vefumsjˇn