A A A

Hljómsveit BG í hálfa öld - Hugurinn reikar hjá Samma

Nú eru 50 ár liðin frá því Baldur Geirmundsson stofnaði sína fyrstu hljómsveit, undir nafni BG þótt hann hafi trúlega verið byrjaður að spila á nikkuna töluvert fyrr á samkomum og böllum. Ég man eftir hljómsveit hans æfa á Uppsölum þegar ég var að þvælast þar með móður minni, sem var matráðskona þar á árunum kringum 1960. Mér er sérstaklega minnistætt eitt lag sem Baldur spilaði á saxann, á þeirri æfingu og minnir mig á þetta augnablik æ síðan. Mig grunaði ekki þá að fáum árum síðar eða 1965 yrði ég farinn að spila í hljómsveitinni hans eða BG og Árni eins og hún hét þá.


Það er margs að minnast frá þessum 30 ára tímabili sem ég var meðlimur í BG. Á sumrin var ferðast meira um landið heldur en á veturna og var oft spennandi hvort margir myndu mæta. Á þeim árum fyrir og eftir 1970 settu konur í sig rúllur við hátíðleg tækifæri, og þótti vísbending um traffíkina hvað sáust margar konur með rúllur þegar komið var á staðinn oftast um miðjan dag. Ein kona með rúllur þýddi 100 manns, 2 konur 200 o.s.frv. Aðsókn var oftast góð og fór vaxandi, og á árunum milli 1970 og 78 þegar BG og Ingibjörg var hvað vinsælust , voru slegin mörg aðsóknarmet vítt og breitt um landið..


Það er erfitt að segja sögur frá þessum árum. Þó það væri oftast mikið fjör í rútunni og margir brandararnir flogið á milli manna við hin ýmsu tækifæri er erfitt að setja slíkt á prent, ekki þurfti mikið til að menn veltust úr hlátri. Það eru mörg atvik sem koma upp í hugann eins og þegar við sváfum öll á gólfinu í Króksfjarðarnesi og Dóri Geirmunds var að berjast við flugu sem suðaði í eyranu á honum og við lágum öll í hlátri í orðsins fyllstu merkingu.


Eða um morguninn þegar Óli heitinn (sem var oft á undan sinni samtíð) hljóp eldsnemma um morguninn hring eftir hring á dansgólfinu en hann var í líkamsræktarátaki, og tók allt með trompi sem hann tók sér fyrir hendur.


Eitt sinn fórum við í hljómsveitarferðalag norður í land með flugvél frá Akureyri þetta var árið 1972 þegar Fisher og Spassky háðu skákeinvígi sitt og vorum við öll að sjálfsögðu með tafl og tefldum á öllum mögulegum stöðum. Þegar við flugum svo heim aftur og vélin var stútfull af hljóðfærum, búið að troða svo í vélina að einn okkar varð að sitja á orgelkassanum milli sætanna. Þeir sögðu kallarnir á flugvellinu á Akureyri að þetta væri eina vélin af þessari gerð sem hefði það í loftið svona þung. Í loftið komumst við, en fljótlega fannst bruna eða sviðalykt og menn fóru að vekja athygli flugstjórans á því. Hann taldi þetta vera jöklafýlu sem legði oft norður í þessari átt, en fljótlega kom annað í ljós og þegar flugmaðurinn rétti okkur slökkvitæki, fór að fara um suma. Í ljós kom að svefnpoki hafði legið svo nálægt loftljósinu að hann var farinn að sviðna . og þegar flugstjórinn bað um að slökkt yrði á ljósinu tók sá sem sat laus á milli sætanna þvílíkt viðbragð að annað eins hefur ekki sést til hans hvorki fyrr né síðar. Heim komumst við og var að mestu leyti notast við rútu eftir það.


Það má ekki gleyma Árna Búbba sem var umboðsmaður okkar á þessum árum. Í rútunni eftir böllin var oft mikið stuð og mikið sungið og Árni þar fremstur í flokki. Eitt sinn vorum við í partýi heima hjá Árna og eitthvað vantaði uppá stemminguna, þá raðaði Árni stólum eins og í rútu og sótti stýri, svo settumst við og sungum nákvæmlega eins og í rútunni.


Guðmundur Marínósson var umboðsmaður á árunum 1965-1966 og sá hann um að kaupa Brjóstbirtu fyrir mannskapinn til að eiga eftir böllin, eða þannig sko. Nú til að makarnir kæmust ekki að hinu sanna skrifaði hann "sound" á uppgjörsnótuna, allar hljómsveitir þurfa jú að sánda og voru aldrei neinar athugasemdir gerðar við þessa uppgjörshefð. Það skal tekið fram að hljómsveitarstjórinn þurfti ekki "sánd", það var innbyggt.

 

Vefumsjón